Friday, January 30, 2009
SISU - Aabyhoj
Hægt er að horfa á leikinn síðan í gærkvöldi með því að smella á SISU hérna fyrir neðan:
Helgarfréttir úr Vesterbro
Gærdagurinn var stór dagur fyrir okkur skötuhjú. SISU spilaði gífurlega mikilvægan leik upp á að eiga möguleika á að komast inn í úrslitakeppni á lokasprettinu og ég fór í annað og seinna prófið í Lifelong Learning mastersnáminu mínu.
Ég var klárlega mun stressaðri fyrir þessa vörn en þá fyrri. Í þetta skiptið vissi ég hvað ég væri að fara út í og var því ekki nærri jafn clueless og í fyrri vörninni. Ég hikstaði aðeins þegar ég átti að útskýra hlutverk og áhrif Evrópusambandsins á borgaravitund ungs fólks og citizenship education í Evrópu, með tilliti til þess hvað Council of Europe, The European Commission og The European Parlament leggðu af mörkum. Ég komst hins vega betur frá því að útskýra áhrif hnattvæðingar á borgaravitund og því hvernig mikilvægi citizenship education héldist í hendur við globalization. Að lokum var ég send út í nokkrar mínútur, kölluð aftur inn og tilkynnt að ég hefði fengið 12 og væri eina í þessum mastersnámi sem hefði fengið hæstu einkunn í báðum prófunum.
*smá mont*
Fannst samt meira gaman að koma heim og fá risa búnt af rauðum rósum frá kærastanum og knús og kveðjur frá vinum og fjölskyldu. Um kvöldið skelltum við Lárus okkur á heimaleik hjá SISU. Félagið hefur þvílíkan metnað fyrir umgjörðinni í kringum leikina og það var mikil stemming fyrir leikinn, sem var fjórði sjónvarpsleikur SISU á tímabilinu. Fyrir utan íþróttahöllina voru logandi eldkyndlar, útigrill þar sem grillaðir voru borgarar og inni var hlaðborð sem hægt var að kaupa "all you can eat" frá klukkan 5 um daginn. Það skapaðist mikil stemming og í öllum hléum og pásum voru mjög flottir dansarar sem héldu uppi góðri stemmingu. Leikurinn var frábær og SISU rúllaði yfir Aabyhoj og unnu þá með nærri 30 stigum. Frábært að vinna fyrsta sjónvarpsleikinn í vetur og enn skemmtilegra að sýna og sanna að SISU er að verða eitt sterkasta liðið í deildinni. Nú er bara að vona að áframhaldið verði jafn ævintýralegt og að liðið komist í úrslitakeppnina. Það þarf smávegis lykke til þess að það gerist, eða semsagt að SISU vinni alla leiki sem eftir eru og að Horsholm eða Næstved tapi sínum leikjum... en við sjáum hvað gerist :)
Erum núna að undirbúa okkur fyrir helgi í sveitinni, ætlum að gista hjá Bjarney og Hadda og eiga góðar stundir með þeim þessa helgi í Odense. Góða helgi til ykkar allra, þangað til næst.
Tuesday, January 27, 2009
Gefðu mér S, gefðu mér I, gefðu mér S, gefður mér U...
Læri læri tækifæri.... bara tveir daga í síðasta prófið á þessari önn, fyndið að ljúka ekki haustönninni fyrr en svona seint. En svona verður þetta líka með vorönnina, hún byrjar ekki fyrr en 4. febrúar og lýkur ekki fyrr en í lok júní. Stemming í því!
Það eru líka tveir dagar í næsta leik hjá Lalla og félögum hans í SISU. Þeir unnu síðasta leik þvílíkt sannfærandi og spiluðu betur en ég hef nokkurn tíman séð þá spila. Ég var ekkert lítið glöð að hafa farið á leikinn. Það voru um það bil 500 áhorfendur frá Svendborg og við vorum 7 frá SISU. Hverjum haldið þið hafið heyrst meira í...!!! Haddi og Bjarney voru líka svo frábær að gera sér ferð með lestinni og komu á leikinn, æðislegt að þau hafi komið á þennan leik - kannski voru þau bara svona mikið happa?? Kemur í ljós á fimmtudaginn þegar strákarnir eiga næsta leik við Aabyhoj. Hægt verður að fylgjast með leiknum beint á netinu, að minnsta kosti textalýsingunni ef ekki næst mynd og hljóð. Ég veit að pabba finnst alveg nógu stressandi að hafa textalýsinguna, held hann myndi fá snert af hjartaáfalli ef hann hefði leikinn bæði í mynd og hljóði. Í síðasta sjónvarpsleik þá tók hann sér pásur frá textalýsingunni til að róa sig niður :)
Annars segi ég bara gleðilegt nýtt kínverskt ár sem var í fyrradag og megi vikan verða ykkur gleðileg og gæfurík á alla kanta.
Friday, January 23, 2009
...
Tími fyrir eitt föstudagsblogg. Lífið heldur áfram hérna í Kaupmannahöfn og er án efa töluvert rólegra en heima á Íslandi. Helstu fréttir sem ekki tengjast körfubolta, námi eða vinnu eru eftirfarandi:
*Í verslunarmiðstöðinni okkar (sem er einmitt fyrir neðan íbúðina okkar) er að opna nýtt outlet með danskri hönnun á borð við Bruuns Bazar og fleiri góðum merkjum. Ég er búin að anda á gluggann hjá þeim í allan dag og býð spennt eftir því að geta skoðað en ekki keypt!
*Við höfum komist að því að það er lang best að versla í Netto klukkan 11 á morgnana. Þá eru vörurnar nýkomnar og ekki kílómeterslöng biðröð og skælandi börn...
*Ég þarf að læra betur á strætókerfið í skólann minn því til dæmis í dag biluðu lestarnar og ég var 1 og 1/2 tíma í vinnuna. Sjúkket að þetta v
ar ekki prófdagur. Annar möguleiki væri líka að ég myndi hjóla... sem minnir mig á það að ég þarf að pumpa í dekkin á bleiku Eurostar elskunni minni.
*Ég fékk sjampó og hárnæringu í afmælispakkanum frá Íslandi og hef sjaldan verið jafn glöð með neina nauðsynjavöru - sem hefur einmitt verið lúxusvara á þessu heimili undanfarnar vikur og mánuði.
En svo ég tali nú aðeins um þetta vanalega og hversdagslega (nám og körfubolta semsagt) þá gekk vörnin vel og ég fékk 12 sem er víst hæsta einkunn hérna í útlandinu. Ekki leiðinlegt að geta fengið meira en 10! Að sama skapi er líka hægt að fá minna en 0 sem ég skil ekki alveg... en það er hægt að fá -2. Kannski ef maður rífur prófið sitt í tvennt fyrir framan kennarann?? En þetta gekk allt saman vel og mér var hrósað
fyrir yfirvegun á meðan svitin lak niður bakið á mér... Síðan er næsti leikur í körfunni gegn Svendborg Rabbits sem eru eitt af bestu liðunum í deildinni og verma annað sætið eins og staðan er í dag. Í síðustu viku var tekið viðtal við Lárus þar sem fjallað er um SISU og komu hans til liðsins.
Viðtalið má finna hérna: Viðtal við Lárus.
Svona rétt til að gleðja þá sem nenna ekki að lesa en finnst gaman að skoða þá koma nokkrar myndir frá síðustu vikum inn á Facebook er alveg búin að gefast upp á að pósta einhverjum myndum hérna inn. Tékkið á fleiri Facebook myndum með því að klikka á þessa mynd :)
Monday, January 19, 2009
Allamalla
Átti súper afmælishelgi og takk fyrir allar góður kveðjurnar þið yndislega fólk. Ágúst besta skinn átti stærra afmæli en ég og hélt því upp á það með stæl. Ekki amalegt boð það. Skemmtum okkur svaka vel og íslenska lambalærið með piparostastósunni slær alltaf í gegn!
Lárus vakti mig síðan á sunnudaginn, afmælisdaginn sjálfan með extra næs morgunmat og huggulegheitum. Ég spjallaði við Guðrúnu Anný í að minnsta kosti klukkutíma í símann sem var einstaklega ánægjulegt og eftir það röltum við Lalli niður í bæ í rigningunni. Forðuðum okkur fljótlega inn á kaffihús, fengum okkur gott að borða og höfðum það huggó. Enduðum síðan daginn og kvöldið í heimsókn hjá Tinnu og Janusi, spiluðum manna, kjöftuðum og borðuðum góðan mat. Gerist ekki mikið betra :)
Í dag og á morgun er ég að undirbúa fyrstu vörnina mína sem fer fram á miðvikudaginn næsta. Vörn nr. tvö fer síðan fram á fimmtudaginn í næstu viku. Ég er ennþá frekar róleg yfir þessu, kemur bara allt í ljós og ég ætla nú ekki að gera mér of miklar vonir um einhvern stjörnuárangur. Verð hins vegar mjög sátt ef ég er svona í meðallagi og næ þessu öllu saman. Seinnipartinn í dag eru síðan fimleikar og Lalli er að leysa af körfuboltakennslu svo við verðum samfó upp í CIS á eftir. Svona erum við samrýmd.... ;)
Við Lalli erum síðan að byrja að vinna meira fyrir SISU þar sem Lárus fékk stöðu sem svokallaður turnering leder eða svona mótsstjóri fyrir alla flokka innan SISU og ég ætla að hjálpa til við skipulagið eins og ég get. Auka krónur þar á ferðinni... þær bara spretta þessar aukakrónur.... var það ekki í einhverri auglýsingu??
Kiss og knús þangað til næst
E+L
Friday, January 16, 2009
Skyderi
á horni götunnar okkar og Saxogade. Já það getur fylgt því ýmislegt misjafn að búa miðsvæðið í stórri borg. í gærdag kom semsagt svartur leigubíll akandi á mikilli ferð inn Matthæusgade og stoppaði á horni Matthæusgade og Saxogade. Tveir menn stigu út og skutu inn á veitingastað í átt að manni sem var þar inni. Í hamaganginum skutu þeir líka á bíla og fólk sem var fyrir utan veitingastaðinn. Allt er þetta eitthvað tengt klíkum og deilum milli ólíkra hópa. Maðurinn sem skotið var í áttina að er á sjúkrahúsi en aðrir sluppu ómeiddir.
Það væri nú óskandi að fólki kæmi betur saman. Því fyrir mér er fjölbreytnin og allt það ólíka fólk sem býr hérna klárlega einn af helstu kostum hverfisins okkar og helsti kosturinn við að búa í borg. En við urðum nú samt sem áður lítið vör við þetta þar sem við vorum bæði í vinnu lengst upp í Emdrup og Holte þannig að við lásum bara um hasarinn í blöðunum. Ég var ekki alveg að fatta kommentið þitt Jónas, en sá þetta síðan á netinu. Held að Norrebro sé nú samt sem áður töluvert meira shady hverfi! Nema kannski fyrir utan reitinn sem þú býrð á. Efast um að eldri borgarar séu mikið í því að stökkva út úr leigubílum með hlaðnar byssur...?? Maður veit samt aldrei hvað gerist!
Rólegt og rómantískt hjá okkur skötuhjúum í kvöld. Ætlum að elda okkur góðan mat og taka jafnvel upp eina rauðvín svona í tilefni ýmissa áfanga. Aðallega samt bara til að halda upp á lífið. Ég er að vinna á morgun og á síðan að verja aðra ritgerðina mína á miðvikudaginn. Spennandi verkefni það! Annars eru nokkrir í kringum mig sem fagna sjálfsagt þessa helgi ýmsum áföngum. Við ætlum að minnsta kosti að samgleðjast einum sem er að eldast all svakalega þessa helgina. Húllumhæ og herlegheit á laugardaginn :)
Úpps dyrabjallan hringir.... later
Monday, January 12, 2009
...
Allt súper gott að frétta af M. 48.
Við skötuhjú vorum ekki lengi að snara okkur inn í daglega lífið. Mér var boðin óvænt vinna í skólanum mínum DPU. Vinnan felst í að aðstoða með stjórnsýslu og umsjón með masters náminu sem ég er í. Ég er því búin að vinna á hverjum degi síðan á miðvikudaginn og finn alveg lyktina af dönsku krónunum.... :)
Síðan er ekki verra að vinnan er mjög skemmtileg og góð reynsla. Gaman að vera treyst fyrir þessu starfi og frábært að fá tækifæri til að sitja "hinu megin við borðið". Sjá hvernig til dæmis umsóknarferlið fer fram og annað slíkt. Ég hef verið í því að flokka og fara í gegnum umsóknir fyrir næsta ár í Lifelong Learning, sem verður þá fjórði árgangurinn í þessu prógrammi. Það komu inn ca 300 gildar umsóknir núna sem er svipað og þegar ég sótti um í fyrra. Eins og í fyrra verða teknir inn 30 umsækjendur. Um það bil 15 í Kaupmannahöfn og 15 í London. Ég var frekar hissa að sjá að það eru eiginlega jafn margir sem sækja um í Köben eins og London. Hélt einhvern vegin að London væri vinsælli áfangastaður, en svo virðist ekki vera.
Umsóknirnar eru frábærlega flottar. Þetta snýst að mestu leyti um að fá "brains" inn í Evrópu og þess vegna er samkeppnin ekkert grín. En ég er æsispennt að fylgjast með því hverjir fá inn og hverjum ég verð að vinna með í vor. Ég fæ semsagt vinnuna fram á næsta sumar og kem líklegast til með að taka á móti þeim sem komast inn að ári, vinna með þeim í undirbúningi og koma þeim inn í nám og samfélag í vor.
Lárus og félagar hans í SISU unnu síðasta leik gegn BK Amager á útivelli sem var frábært afrek hjá þeim. Afskaplega mikilvæg og góð útistig. Lárus skoraði síðustu þrjú stigin úr glæsilegri þriggja stiga körfu á loka mínútunum í æsispennandi leik. Þeir eru nú í baráttu um að koma sér inn í úrslitakeppnina. Það fara bara sex lið inn í úrslitakeppni og í dag eru þeir í 6. - 7. sæti. Þurfa að vinna lið Næstved með nokkuð mörgum stigum til að hafa betri stöðu innbyrðis gegn þeim. Næsti leikur verður fimmtudaginn 15. febrúar og það er sjónvarpsleikur. Íþróttastöðin DK 4 er að gera rosalega góða hluti hérna og sýnir grimmt frá dönskum körfubolta, þó svo að handboltinn sé nú töluvert vinsælli. Sjónvarpsleikurinn er í beinni en það gæti kostað peninga að horfa á hann. Við Lalli mælum þess vegna með því að fólk sæki frekar leikinn daginn eftir og þá kostar hann ekki neitt. Vefslóðin er www.dk4.dk og þar má finna fleiri eldri leiki.
Plönin okkar eru sem fyrr tengd körfubolta, skóla og vinnu. En líka tengd vinum og vandamönnum sem betur fer :) Á miðvikudaginn ætlum við vonandi að kíkja á Elmar og Eddu með Telmu frænku. Hef ekki séð þau í alltof langan tíma og við stefnum á sushi hitting. Síðan er aldrei að vita nema að maður kíki á næstunni á Ingu, Braga og Óla litla sem fæddist loksins í nótt og kemur vonandi heim í Vesterbro fljótlega.
Ást og kossar frá Köben til ykkar allra sem dettið hingað inn :)
E+L
Monday, January 05, 2009
Áfram áfram
Rútína, dagleg líf, raunveruleiki... Já það hlaut að koma að þessu!
Lalli fór að vinna í morgun og ég fór í skólann. Reyndar er ég ennþá á haustönn ólíkt því sem gengur og gerist í íslenskum skólum. Ég afrekaði að skila fyrstu masters verkefnunum mínum í dag og í kjölfarið af því fæ ég "frí" til að undirbúa vörn sem fer fram í lok janúar. Vörnin gildir 50% á móti ritgerðinni sjálfri er okkur sagt. Ég held nú reyndar að það virki meira þannig að leiðbeinandinn og prófdómarinn lesa ritgerðirnar, gefa einkunn og ákveða svo í vörninni hvort þessi einkunn sé við hæfi eða ekki. Sem er reyndar ágætt því þá gefst manni færi á að hækka sig.
Ég afreka líka að týna símanum mínum (sem var nú ekki mikill skaði þar sem hann var eiginlega alveg búinn á því). Fékk afnot af eldgamla símanum hans Lárusar og fékk mér nýtt númer í dag. Það mun vera: +45 (fyrir útlendinga) 2792 3702. Ég er ennþá í TELIA svo ég geti blaðrað frítt allan daginn við Hildi Maríu, Ágúst og Lalla... ég er nefnilega frábær símavinur!!
Körfuboltafréttir: Næsti leikur er 7. janúar 2009 á móti Amager.
Subscribe to:
Posts (Atom)