Thursday, November 27, 2008

Allt að gerast...

Búið að vera heldur betur mikið að gera og bloggið eftir því í lamasessi. Ég skrapp eins og einhverjir vita til Bilbao til að kynnast bæði skóla borg aðeins áður en ég held þangað á vit ævintýranna í september. Ferðin sjálf hefði alveg getað verið ögn ánægjulegri þar sem ég hóstaði mig í gegnum hana og var hálf meðvitundarlaus af slappleika. Engu að síður spennandi borg og æðislega sjarmerandi skóli.





Guggenheimsafnið jaðraði auðvitað bara við hálfgerða geðveiki en flott var það!! Við lærðum líka helling á að ferðast svona mörg saman, bekkurinn þjappaðist saman og það var ómetanlegt að fá að kynnast Londonhópnum (krökkunum sem eru á sama stað og ég í náminu en eru að læra í London) og öllum prófessorunum frá London að auki. Gerir reyndar ákvörðun um stað á 4. önninni aðeins flóknari, ég sem ætlaði aldrei til London er nú allt í einu orðin frekar svag fyrir því að skella mér þangað á síðustu önninni - af hverju ekki að taka þetta bara með trompi og fara á alla þrjá staðina og læra í öllum þremur skólunum??

Lárus og félagar unnu fyrsta leikinn sinn í langan tíma og rúlluðu yfir Horsens sem var mjög ánægjulegt. Hr. Jónsson sem á eitt stykki stórafmæli á morgun - já giskiði nú - er allur að koma til og á vonandi eftir að eiga góðan leik næsta laugardag þegar Sisu tekur á móti Roskilde. Helgin verður einkar skemmtileg og spennandi fyrir þær sakir að mamma og pabbi ætla að kíkja á okkur, fylgjast með körfubolta og bjóða okkur í julefrokost... ekki slæmt það!

Við Lalli erum síðan bæði komin með annan fótinn inn í hinn frábæra skóla CIS (www.cis-edu.dk) þar sem Lalli verður líklegast líka substitute kennari þar auk þess að kenna íþróttir í svokölluðu after school activities fyrir krakkana. Alltaf gott að skapa tengsl og fá tækifæri á að þéna nokkrar danskar krónur.

Ég, Tinna frænka, Haukur og Maggi (einstaklega færir og skemmtilegir arkitektar) erum síðan að leggja lokahönd á tillögu okkar að nýjum miðbæ í Hveragerði. Tillagan er frekar nýstárleg og nokkuð "wild" svo ég sletti aðeins en að mínu mati ótrúlega spennandi og vel framkvæmanleg og án efa besti kosturinn fyrir Hveragerðisbæ. Skilafrestur er 1. desember svo helgin verður undirlögð...

Setjum inn fullt af myndum frá afmælishelginni miklu og heimsókn...

Monday, November 17, 2008

...

Dagur tvö í forfallakennslunni var eins og þið höfðuð flest spáð mun auðveldari og nú hafði ég líka nokkur tromp uppi í erminni til að róa krakkastóðið ;) Þau voru hin ljúfustu og enduðu daginn á að lita stóra og fallega mynd handa mér. 



Helgin fór nú svona eins og við plönuðum nokkurn vegin í lærdóm. Kíktum reyndar aðeins út og hittum vini okkar. Við fengum líka heimsókn frá kvikmyndagerðarfólki sem ætlar að koma hérna einn dag í nóvember og taka upp mynd. Þau voru algjörlega heilluð af gamaldags 50's 60's lúkkinu og sögðu að þessari íbúð mætti aldrei breyta. Nú vissu allir í film-bransanum hvar ætti að taka upp myndir sem þyrftu gamaldags setting. Stelpan sem leigir okkur hefur áður leyft tökur á kvikmyndum hérna inni og þess vegna vissu þau af íbúðinni. Við erum alsæl þar sem við fáum smávegis borgað fyrir ómakið - sem er alls ekki neitt þar sem ég verð á Spáni og Lárus í vinnunni daginn sem þau taka upp. 

Sunnudeginum eyddum við á Loppemarked og versluðum nokkrar jólagjafir. Vinir og fjölskylda verða semsagt að sætta sig við gjafir keyptar á flóamarkaði þetta árið. Ég veit að mamma var að vonast eftir einhverju frá Arne Jacobsen en því miður fann ég ekkert frá honum á markaðnum mamma ;) 

Við fengum líka uppáhalds litlu fjölskylduna okkar hérna úti í heimsókn á laugardaginn í tilefni þess að ég, húsmóðir með meiru, bakaði eplaköku. Ekki amalegt það. Er búin að fá svo mikið heimabakað hjá Tinnu og Janusi að ég varð hreinlega að spreyta mig sjálf.

Annars er jólabjórinn auðvitað kominn í bæinn og við Lalli kíktum auðvitað á hverfisbarinn okkar til að fagna. Verst að okkur finnst hann ekkert voðalega spes. Tuborg Classic er alltaf bara bestur.
 







Thursday, November 13, 2008

Ms. Eva

Fyrsti dagurinn minn sem substitute teacher liðinn og mér líður eins og hafi orðið fyrir bíl. Mig óraði nú bara ekki fyrir því að sex ára gömul börn gætu verið svona fjörug!! Við erum að tala um það að ég var mætt í skólann 7:45 og kom heim um 16:00 ekki búin að fá eina mínútu í pásu til að borða eða drekka. 

Þau tala svo mikið og svo hátt og eru frá alls konar löndum. Rífast um alla hluti, fara undir borð og upp í glugga. Reyna að blekkja forfalla kennarann (mig) með ýmsum ráðum. Tala mörg mismunandi tungumál, eru æst og óþolinmóð en líka voða sæt þegar þau segja Ms. Eva do you know that in every second a new baby is born! 

Vá hvað það er miklu miklu miklu erfiðara að kenna börnum sem sum skilja þig ekki, sum tala dönsku, sum ensku, sum ítölsku, sum spænsku og sum þýsku. Líka óendanlega erfitt að hafa ekki orðaforða til að segja allt sem ég vil segja. Ég þarf miklu meiri tíma en venjulega til að hugsa og það er ekki mjög heillavænlegt í þessu umhverfi þar sem maður verður að geta svarað fyrir sig einn tveir og bingó og verið fljótur að leysa ýmis konar ágreining og misskilning. Annar dagur á morgun með sama hóp - þá verð ég kannski aðeins komin upp á lagið með að búa til stopp merki eða time out merki með höndunum. Stundum virkar táknmál bara betur ;) 

Hr. Jónsson fékk svo eftir allt saman leikbann (ætla að sleppa því að úthúða dómurunum) sem þýðir að hann tekur út bannið í næsta leik sem er bikarleikur um 4 liða úrslit. Eins gott að þeir standi sig kapparnir án hans og fari nú að spýta í lófana og hysja upp um sig buxurnar = vinna leik.

Komandi helgi og næsta vika verður undirlögð í lærdóm þar sem ég er að missa úr tvo heila daga nánast í dag og á morgun. Á föstudaginn eftir viku flýg ég síðan suður á bóginn í tengslum við námið mitt. Ráðstefna og seminar í Bilbao - ekki leiðinlegt það! Verð rúmlega helgina þar, kem síðan heim til Köben og geri klárt fyrir fyrstu heimsóknina frá Íslandi!! 





Wednesday, November 12, 2008

Hér verður boðið upp á góðar fréttir...

Á meðan Lalli býr til nesti handa okkur (skyrdrykk) frammi í eldhúsi ætla ég að uppfæra bloggið með góðum fréttum. Ekki vanþörf á svoleiðis fréttum hef ég heyrt.

Ég fékk vinnu og svo meiri vinnu! Ég byrja að vinna sem fimleikaþjálfari í desember eins og áður hefur komið fram (þetta er alveg eins og ekta fréttaveita). Síðan hef ég verið að bíða eftir því að verða kölluð í viðtal vegna forfallakennslu og fékk loksins símtal í kvöld þar sem ég var ekki boðuð í viðtal heldur einfaldlega beðin um að koma og kenna á fimmtudag og föstudag. Fyrsta forfallakennslan felst í að kenna 1. bekk - væntanlega bara allt sem er á dagskránni þessa tvo daga. Síðan er bara vonandi að sem flestir verði forfallaðir og veikir á næstu vikum og mánuðum! 

Aðrar góðar fréttir eru þær að Lalli fékk ekki leikbann fyrir þessar blessuðu ásetningsvillur sem voru dæmdar á hann í síðasta leik (sem voru að sjálfsögðu afar óréttmætar og óþarfa væl í dómurunum). Dómararnir sáu víst sjálfir að þetta var algjör rugl dómur og skrifuðu þar af leiðandi ekkert leikbann á skýrsluna. Lalli er því geim í næsta leik sem verður þann 20. nóvember á móti Randers í bikarkeppni. 

Monday, November 10, 2008

...

Engar fréttir eru góðar fréttir... eða hvað? 

Það sem er helst að frétta af okkur skötuhjúum er:

Lalli spilaði fyrsta deildarleikinn sinn í vetur. Var bara þrusugóður í fætinum en aðeins of keppnis kannski þar sem hann var rekinn útaf með 2 ásetningsvillur þegar 8 mínútur voru eftir af leiknum. Leikurinn tapaðist svo með 3 stigum stigum sem var einstaklega svekkjandi. Til allra lukku tekur hann líklegast út leikbannið sem hann fékk í bikarleik í næstu viku og getur því vonandi sýnt stjörnuleik þann 29. nóvember svona í tilefni þess að mamma og pabbi eru að koma til að horfa og svo auðvitað í tilefni þrítugsafmælisins...!! 

Á jákvæðari nótum þá er ég komin með vinnu frá og með 1. desember nk. Kem til með að kenna fimleika sem "after school activity" fyrir krakka í CIS sem er international einkaskóli hérna í Köben. Ég á einnig möguleika á að vinna eitthvað sem forfallakennari sem er einkar jákvætt fyrir fjárhaginn. 

Sem smá mótvægi við alla þá umræðu sem hefur verið í gangi um að Íslendingar fái slæmt viðmót í Danmörku og annars staðar erlendis þá langar mig að koma með örlítið innlegg. Við, og allir vinir okkar (að mér vitandi) hafa ekki fengið neitt nema ótrúlega góðan skilning á stöðunni og ástandinu. Fleiri en einn og tveir hafa boðist til að hjálpa okkur að finna vinnur, við höfum fengið allan þann frest sem við þurfum varðandi greiðslur og fólk er upp til hópa mjög boðið og búið að gera allt sem það getur til að létta manni lífið og hefur í raun og veru töluverðar áhyggjur af manni - sem mér fannst bara ótrúlega sérstakt og fallegt. Þeir íslendingar sem hafa fengið slæmt viðmót eru að ég held algjör undantekning frá því sem gengur og gerist í eðlilegu samfélagi fólks. 

Einmitt og akkúrat... og ekki orð um það meira ;) 




Monday, November 03, 2008

Vinir

Áttum gott laugardagsvköld með vinafólki okkar frá Litháen, þeim Agne og Alanas. Alanas er að spila með Lalla í Sisu og flutti hingað með konunni sinni Agne. Þau eru nýgift og skruppu 10 daga til Tælands í brúðkaupsferð. Eru þess vegna frekar brún og sælleg á þessum myndum og við Lalli lítum út fyrir að vera veik eða þá að það vanti einhver litarefni í okkur....