Saturday, June 30, 2007

Kóngsins Köben

Myndin er reyndar ekki tekin fyrr en á degi tvö en við gleymdum aðeins myndavélinni þegar við komum til Köben, enda rigning og suddi í Köben og ekkert sérstaklega fótógenískt veður. Við erum hins vegar afar fótógenísk eins og þið sjáið...

Á degi eitt var gist hjá Hildi og Ágústi á yfirdýnu á stofugólfinu. Fullkomið fyrir utan kaffileysið... Við bíðum síðan spennt eftir sófanum sem er væntanlegur í september.

Á degi tvö fórum við á tónleika með Perlu Sultu (Pearl Jam) og urðum sko alls ekki fyrir vonbrigðum. Brjálæðislega flottir og tilfinningaríkir tónleikar, þar sem þetta var í fyrsta skiptið síðan hljómsveitin spilaði í DK - eftir að 8 manns dóu á Roskildetónleikum.










Heima hjá Hildi og Ágústi er alltaf mikið stuð eins og myndirnar gefa til kynna. Á meðan Hildur var ófrísk og þreytt sat Lalli og gerði ekki neitt (nema að vera kúl með súkkulaðivindil sem hann keypti í rapparabúð). Eva komst í mikið hipp hopp stuð eftir heimsóknina í rapparabúðina og bauð upp á frítt dans sesion.


Það þarf að huga að ýmsu þegar lítið kríli á að koma í heiminn og hérna má sjá Hildi vinna hörðum höndum að því að koma á sameiginlegu forræði hennar og Ágústar yfir barninu. Hildur heldur að barnið sé strákur og hefur valið nafnið Konráð, Ágústi til mikillar gleði.











Á föstudaginn fór að rofa til og sjást til sólar, við skelltum okkur í
bæjarferð í tilefni dagsins og hittum meðal annars á Möggu sætu sem var á leiðinni á Hróarskeldu, Eva æfði sig í nautaati fyrir Argentínuferðina og strákarnir tóku Broke Back atriði í mátunarklefanum í Tiger of Sweden búðinni.

Thursday, June 28, 2007

Æ það reddast... ;)

Þá erum við komin til Köben. Pínu ponsu eins og að koma heim. Sólin tók reyndar ekki beint á móti okkur heldur er búið að rigna nær stanslaust síðan við komum. En sem betur fer er næs að koma til Hildar og Ágústar í hvernig veðri sem er. Þau voru svo yndó að leyfa okkur að gista þó svo að Hildur sé alveg gjörsamlega að fara að eiga (sett á þriðjudaginn næsta).

Við fórum einmitt með ófrísku konunni ásamt fríðu föruneyti á bestu tónleika lífs míns á þriðjudaginn. Ófríska konan stappaði niður fótunum og rokkaði svo mikið að ég bjóst við að barnið myndi poppa út á hverri stundu. Ég hins vegar skældi bara af hrifningu. Afar tilfinningaríkir tónleikar en líka bara alveg ofsalega góðir og heilmikið rokk. Ég kom sjálfri mér bara hreint á óvart og fílaði þetta svona líka vel.

Við erum búin að fá smjörþefinn af því hvað þarf að græja og gera áður en maður eignast barn og erum búin að þræða þónokkrar barnabúðir og húsgagnaverslanir með þeim skötuhjúum. Annars eru þau mjög svo róleg yfir þessu öllu saman og ég ætla svo sannarlega að taka mér þau til fyrirmyndar þegar og ef ég eignast einhvern tíman barn. Svo er Hildur líka bara svo ofsalega falleg svona ófrísk (hún vildi að ég segði að hún væri feit og fín - en mér finnst hún bara ekki neitt feit).

En aftur að ferðinni....
Eftir nokkur bréfaskipti við vin okkar Pál Dungal komumst við að því að við getum ekki borgað leiguna með neinu öðru en beinhörðum dollurum. Ekki er tekið við kortum og hvað þá argentískum peningum. Dollarar eru jú mun verðmeiri og auðvitað eina vitið að fá þá beint í hendurnar. Þannig að eftir útreikninga okkar Lárusar þá telst okkur til að við þurfum að ferðast með um það bil þrjú hundruð þúsund íslenskar krónur í dolllurum til Argentínu til að geta greitt fyrir gistinguna og skólann þegar við komum út. Það er víst ekki alveg inni í myndinni að skipta peningum eða taka út peninga (dollara semsagt) í Argentínu. Frekar mikið "wanted" mynt og ekki á hverju strái.

Staðan er semsagt þannig að í dag vantar okkur næstum því allan þennan pening í dollurum og vitum ekki alveg hvernig við eigum að geta skipt svona miklum pening á einum degi. Eigum vissulega alveg þessa upphæð inni á bókinni okkar á Íslandi en það er hægara sagt en gert að ná þessum pening út á einum degi.
Ætlum að reyna að fara með kreditkortin okkar í danskann banka á morgun (síðasta daginn okkar í Köben) og athuga hversu mikið við náum út í dönskum krónum sem væri síðan hægt að skipta í dollara hérna í Köben, ólíkt því sem gengur og gerist í Argentínu greinilega.

Mér varð hugsað til þess ef þetta ástand myndi skapast á Íslandi. Hvað myndi gerast ef íslenski efnahagurinn færi eins og sá Argentíski gerði hérna árið 2002. Fólk í Argentínu sem hafði það fínt og var í raun af milli-há stétt, ferðaðist reglulega til Evrópu, sendi börnin sín í skóla erlendis fyrir árið 2002 er í dag bara að skrapa saman fyrir mat og hefur flest ekki tækifæri til að nýta menntunina sína eða þá stöðu sem það hafði unnið hörðum höndum að allt sitt líf. Skelfilegt að hugsa til þess ef að íslenska krónan yrði allt í einu ekki "krónu" virði.

Anyways þá er þetta planið okkar for now, að redda nægilega mörgum dollurum til að geta borgað fyrir gistingu. Kem með nánari díteils seinna um hvar við erum búin að leigja íbúð og nýja skólann and so on.

Kossar & Knúz
E+L

Sunday, June 24, 2007

Ný plön

Við gerðum smá breytingar á plönum í gærkvöldi. Skiptum um skóla og erum nú í óða önn að leita okkur að nýrri íbúð til að leigja. Ekki kannski alveg ég að skipta svona um stefnu degi fyrir brottför en ég er viss um að við erum að gera rétt með því að breyta aðeins til.
Okkur var nefnilega boðið í morgunkaffi til Páls nokkurs Dungals og í gærmorgun skunduðum við á Þingvöll í bústaðinn hans til að fræðast um Buenos Aires. Hann benti okkur á betri skóla, ódýrari leigu og skemmtilegri staðsetningar. Það var því úr í gærkvöldi að við "offuðum" fyrri plön og erum svona í rólegheitunum að gera ný. Nú vonum við bara að við náum að redda íbúð áður en við förum út.
Nýji skólinn okkar heitir Hispan Aires og virkar mjög vel á okkur. Við fengum svar um leið frá þeim og fengum að auki afslátt af náminum fyrir það eitt að þekkja til Páls Dungals. Draumastaðsetning fyrir íbúð er síðan í Palermo, rétt við Santa Fe. Ekki of nálægt City en þó ekki of langt inn í Palermo. Ég skrifaði á nokkrar leigumiðlanir í dag og býð spennt eftir svari. Það er nú reyndar ekki von á því á sunnudegi þar sem fólk tekur sér réttilega frí á sunnudögum í Suður Ameríku.
Annars er ég ekki mjög áhyggjufull, borgin er afskaplega stór og mikil og eflaust íbúðir og hótel á hverju götuhorni. Á stór Buenos Aires svæðinu búa um það bil 14 milljónir en í miðkjarnanum þar sem fjögur til fimm hverfi mynda þéttustu byggðina búa um það bil 4 milljónir.
Helstu hverfin eru Palermo, Barrio Norte, Recoleta, City Center og San Telmo. Þessi hverfi liggja öll ofan í hvort öðru nokkurn vegin en hafa öll hver sitt einkenni sem ég ætla að lýsa betur þegar á staðinn er komið.

Wednesday, June 20, 2007

Argentína

Á köldu janúarkvöldi villtist Lárus inn á heimsíðu þar sem boðið var upp á spænskukennslu í Argentínu og Chile. Á meðan haglélið lamdi á rúðuna lét Lárus sig dreyma um sumar og sól á suðrænum slóðum. Eftir nokkra daga umhugsun og nánari eftirgrennslan spurði hann mig hvort ég hefði áhuga á að fara í spænskuskóla í sumar. Ég þurfti mun minni umhugsunarfrest en Lárus og sagði einfaldlega já takk.

Við bókuðum skólann sama kvöld og völdum Argentínu sem áfangastað. Argentína lætur einfaldlega vel í eyrum og við töldum að nautasteik og rauðvín á hverju kvöldi gæti vanist ágætlega. Að auki heillaði lágt verðlagið okkur, eftir að fjármálamarkaðurinn í Argentínu féll árið 2002 hefur gjaldmiðilinn þeirra verið í sögulegu lágmarki. Það ætti því ekki að kosta mikið að fæða okkur og klæða á meðan dvölinni stæði. Við bókuðum því 10 vikur í það heila og brostum út að eyrum.

Ferðin krafðist vissulega einhvers undirbúnings - sem hefur reyndar verið í algjöru lágmarki svona miðað við fyrri ferðir og skipulagsáráttu. Ég persónulega vissi ekki neitt um Argentínu áður en ég fór að afla mér upplýsinga.

Það fyrsta sem ég lærði er að sökum þess að Argentína liggur hinu megin á jörðinni þá er VETUR þar þegar það er sumar hér... Þessi nöturlega staðreynd plantaði örlitlum efasemdarfræjum í huga minn. Ég eyddi þeim hins vegar fljótt og hef verið ötul við að sannfæra bæði mig og aðra að þessi vetur verði einn sá heitasti og að meðalvetur þar sé þónokkuð betri en meðalsumar hérna á Íslandi.

Meðalhitinn í Argentínu er afar misjafn, enda landið álíka stórt og Evrópa mæld frá Norður Noregi til Spánar og er 8. stærsta land í heimi. Í höfuðborginni, Buenos Aires, þar sem við hyggjumst eyða bróðurpartinum af tímanum er meðalhitinn í kringum 15-17 gráður yfir vetrartímann. Á nóttunni getur hitinn hins vegar hæglega fallið niður í 5 gráður og þar sem ekki fer mikið fyrir kyndingu í Suður-Ameríku mætti ætla að föðurlandið og flíspeysan kæmu sér vel.

Til að róa eldri aðstandendur og þá sem fyllast óhug þegar flogið er til fjarlægari landa en norðurlandanna þá er Argentína talin vera öruggasta land Suður-Ameríku. Glæpir utan stórborga eru afar sjaldgæfir og fólkið yfirleitt tilbúið að hjálpa og aðstoða ferðamenn (þessu lofar Lonely Planet bókin mín allavega).

En nóg í bili af Argentínu - ætla að segja ykkur betur frá skólanum sem við völdum og stórborginni Buenos Aires þar sem við komum til með að eyða ca 6 vikum af 10. Hinar þrjár eru undirlagðar í ferðalag á heitari staði og kaldari reyndar...

Monday, June 18, 2007

Kun en uge

Það er skemmtilegt twist í því að byrja nýtt blogg á danskri fyrirsögn. Fyrirsögnin á samt einstaklega vel við í dag þar sem það er einungis ein vika eða "kun en uge" þangað til að við fljúgum til Kaupmannahafnar. Elfa benti mér á að það væri sniðugt að halda þessari síðu upp í sumar - þar sem hún hefur áður þjónað vinum og kunningjum sem upplýsingagátt um ferðir okkar Lárusar.

Fyrrasumar einkenndist af dönskum huggulegheitum þar sem hjólreiðar, sólböð og nokkrir bjórar komu við sögu. Í sumar ætlum við að halda örlítið sunnar á bóginn og eyða nokkrum vikum í Argentínu, nánar tiltekið í Buenos Aires.

En eins ég sagði áðan þá fljúgum við til Köben á mánudaginn næsta. Rifjum upp kynni okkar af Islandsbrygge og Salonen. Knúzum og trútsum Hildi, Ágúst og barnið sem Hildur lumar á í maganum. Eftir nokkra daga kelerí býður okkar flug frá Köben til Parísar og frá París og til Buenos Aires.

Ætlunin er því að halda úti skemmtilegri upplýsinga- og myndasíðu hérna á þessari slóð. Það er líka alltaf gott að fá comment og krítík á það sem við erum að gera. Með þessari undursamlegu tækni mætti því ætla að við gætum átt í ágætis sambandi við fjölskyldu, vini og kunningja þrátt fyrir að vera búsett hinu megin á jörðinni, rétt við suðurpólinn.

Ætla að koma með nokkra skemmtilega punkta um áætlaðan áfangastað svo að sem flestir átti sig á því hvað er í vændum hjá okkur Lalla.

Ást og kossar