...eða allt að því.
Sumarið á næsta leyti samkvæmt dagatalinu en veðrið úti er ekki mjög sannfærandi. Frost um allt land, snjóbylur fyrir norðan og almenn leiðindi. Norðanhret í maí - svona er lífið á Íslandi.
Lífið virðist nefnilega yfirleitt ganga sinn vanagang og veturinn hefur verið okkur litlu fjölskyldunni bæði viðburðaríkur og lærdómsríkur. Eins og flestu fólki á Íslandi virðist tamt, tókum við skötuhjú að okkur allt of mikla vinnu og kepptumst við tímann nær alla daga. Með hækkandi sól og bjarsýni sumarsins í hjartanu lofum við bót og betrun og ætlum okkur að eiga fleiri stundir saman sem fjölskylda næsta vetur...
Hér má glöggt greina ákveðið syndrom sem felst í því að lifa heldur ekki í núinu heldur plana nógu asskoti mikið fram í tíman og ætla sér bæði mikið og lítið þá... í framtíðinni, eftir nokkrar vikur, á næsta ári, eftir sumarið, fyrir jólin, í upphafi vetrar.... Þið kannist öll við þetta.
En hvað um það, það þýðir ekkert annað en að spila með. Spennandi sumar framundan, með of mörgum utanlandsferðum sem verða án efa allt of dýrar en eiga líka alveg vafalaust eftir að skapa óteljandi frábærar og ómetanlegar minningar.
Í byrjun júní ætlum við Lárus í fyrstu "kærustuparaferðina" okkar sem allir í kringum okkur tala um að sé svo mikilvægt að fara í - ég held reyndar að það sé bara mikilvægt að fara nógu oft til útlanda. Í því felst galdurinn, með eða án barna er ekki endilega alveg atriðið. En þessi ferð til New York í byrjun júní mun staðfesta þann þá annars óskiljanlegu staðreynd að ég er víst orðin 30 ára og hálfu ári betur (þegar ferðin á sér stað). Við hlökkum óskaplega mikið til en kvíðum því líka oggupons að fara frá heimasætunni Heru Fönn í heila viku. Henni á hins vegar ekki eftir að leiðast í eina mínútu enda eru amma hennar og afi í Brúarhvammi tilbúin með 7 skemmtidagskrá sem hæfir ársgamalli syngjandi og dansandi krúttmús einstaklega vel.
Annað á dagskránni þetta sumarið eru nokkur afar spennandi brúðkaup sem haldin verða í Mosfellsdal, Skorradal og á Punta Samana í Karabíska hafinu. Við setjum hvorki fyrir okkur afleggjarann inn að Fitjum í Skorradal né 10 tíma flug í Dóminíska Lýðveldið og stefnum á þrennu.
Meira síðar...
Monday, May 14, 2012
Thursday, August 04, 2011
Einstæð móðir...
...í 8 daga og mikið vildi ég ekki gera þetta að vana! Að eiga barn er tveggja manna (og kvenna) verk í það minnsta. Það er nú ekki mikið fyrir litlu Fönn haft en engu að síður hlakka ég óendanlega til að fá pabba hennar aftur heim til okkar. Fyrir utan hvað ég sakna þess bara að hafa einhvern að spjalla við á kvöldin og morgnanna þá er ótrúlegt hvað allt verður miklu flóknara og erfiðara ef það eru ekki fjórar lausar hendur á heimilinu. En síðan venst þetta kannski bara og maður lærir að plana aðeins fyrirfram, taka hlutina til, hugsa fram í tíman og gera ráð fyrir því að vera einn.
Ég er að minnsta kosti búin að lenda nokkrum sinnum í því að vera komin með barnið á skiptiborðið og úr fötunum en ekki búin að ná mér í blautþurrkur (eða blautan svamp) og þá er ekki hægt að kalla "Æ Lalli nenniru..." Þá er bara að taka barnið upp aftur, ná í svampinn og vonast til þess að hún pissi ekki á mig á meðan (sem er óraunhæf ósk því henni verður iðulega mál þegar hún er loksins laus við bleyjuna).
Í kvöld pantaði ég pizzu og var reyndar svo heppin að mamma leit inn stuttu seinna og gat linað samviskubitið sem ég fékk yfir því að hafa panta pizzu fyrir mig eina. Hin þrjú kvöldin sem við mæðgur erum búnar að vera einar heima borðaði ég ekki neitt í kvöldmatinn. Fyrsta kvöldið uppgötvaði ég klukkan 10 þegar Hera Fönn var sofnuð að ég var mjög svöng og skellti þá í mig einni skál af serjósi svona rétt áður en ég háttaði hin tvö kvöldin fór ég bara svöng að sofa. Ég er semsagt ekki búin að elda neitt síðan Lalli fór enda glatað að elda fyrir einn. Ætli fólk sem býr eitt eldi einhverntíman kvöldmat? Hera Fönn hefur talað við pabba sinn á Skype á hverju kvöldi síðan hann fór og verður orðin vel sjóuð í millilandarsamtölum áður en hún nær að verða 5 mánaða. Hún saknar pabba síns held ég óskaplega - eða amk þess að vera í félagsskap einhvers annars en móður sinnar enda mikil partýpía og finnst fátt skemmtilegra en að vera á meðal fólks. Thank god fyrir mömmuklúbb á morgun!
Subscribe to:
Posts (Atom)