Thursday, December 30, 2010

Doktorsdraumurinn

Fæ fiðrildi í magann þegar ég sé auglýsta spennandi doktorsstyrki í einhverjum skólum í útlöndum - ég er áskrifandi af ýmsum síðum og fæ því sent nokkru sinnum í viku einhver ægilega spennandi tilboð um styrki. Reyndar eru flest þeirra verulega utan þess ramma sem ég hef einhverja hæfileika á. Til dæmis virðist endalaust vanta stjarneðlisfræðinga, kjarnorkusérfræðinga eða jafnvel einhverja sem eru sérhæfðir á sviði sjávarfalla.

En stundum læðist inn einn og einn styrkur sem er eins og hannaður fyrir mig og mitt áhugasvið. Ég býð tækifæris. Set stefnuna á greinaskrif og kennslu næsta árið og safna í sarpinn. Geri svo dúndurumsókn eftir um það bil ár og fæ styrk aldarinnar (kallast þetta ekki að setja sér markmið annars - eða er þetta meira svona óskyhyggja?).

Hvort heldur sem er, þá er ég alltaf jafn spennt fyrir framhaldinu og finnst ég ekki alveg búin að ná markmiðunum fyrr en ég klára PhD og næ að dýpka mig enn frekar í rannsóknum og sérhæfingu um borgaravitund og menntun. Slíka dýpkun og sérhæfingu er ekki mögulegt að ná fram nema að fá borgað fyrir það að rannsaka. Nám og kennsla fléttast enda alltaf saman á endanum og þannig lít ég á doktorsnámið - sem þriggja ára (lágmarks) vinnusamning við ákveðinn háskóla og fræðasviðið í heild sinni. Síðan er maður svo skandinavískur í hugsun að fjölskyldan verður samt að fá sinn skerf og rúmlega það og þess vegna lít ég til þess að doktorsnámið mitt geti boðið upp á fæðingarorlof, lífeyrisréttindi og sjúkratryggingar. Þetta er alls ekki sjálfsagt í flestum löndum öðrum en Norðurlöndum. Prófessorinn minn á Spáni tók til dæmis framan fram yfir börn og sagði það einfalt reiknisdæmi þar í landi. Ef þú ætlaðir að klára doktorspróf, fá góða stöðu við virtan háskóla og geta sinnt rannsóknum (ráðstefnum, skrifum, erindum og öllu sem því fylgir) þá eignastu ekki börn. Ef þú eignast börn þá sættiru þig einfaldlega við minna (eða nærð þér í kall sem fær að sinna sínum frama á meðan þú sinnir barninu).

En ég eins og flestar íslenskar konur á mér draum um að geta gert bæði og vinn því jafnt og þétt að því markmiði að finna leiðir og lausnir sem leyfa mér að njóta þess að vinna að skemmtilegu og krefjandi starfi auk þess að eiga gæðastundir með maka og fjölskyldu. Vamos a ver!

Monday, December 27, 2010

Huggulegheit að vanda...

Skruppum í ótrúlega vel heppna aðventuferð til Svíðþjóðar. Stokkhólmur er falleg borg - óþarflega köld kannski akkúrat á meðan við heimsóttum hana enda kaldasta tímabil í sögu Svíþjóðar síðan veðurmælingar hófust að sögn RÚV. Kuldinn kom hins vegar ekki að sök enda nutum við yndislegrar gestristni Hildar og Hjartar og höfðum það huggulegt bæði innan dyra sem utan. Drukkum jólaglögg, borðuðum piparkökur með gráðosti, fórum á söfn, kíktum óvenjulítið í búðir en vorum þeim mun duglegri að detta inn á kaffihús og veitingastaði.

Oft fannst okkur eins og við værum komin heim enda margt líkt með Danmörk og Svíþjóð. Það fylgdi því notaleg tilfinning að sjá til dæmis ýmsar kunnulegar vörur í kjörbúðinni og að stimpla lestarmiðann. Það er samt líka margt ólíkt og við vorum ekki frá því að stéttsiptingin væri öllu meiri í Stokkhólmi en Kaupmannahöfn. Við rákumst til dæmis varla á litað fólk í miðbænum en úthverfamollin voru hins vegar full af slæðuklæddum konum. Við erum bæði á því að þessi ferð kalli einungis á aðra ferð sem verður þá farin að vori til. Það er vafalaust magnað að upplifa Stokkhólm yfir sumartímann - siglandi á milli allra gullfallegu eyjanna. Þegar gestgjafarnir okkar verða búni að fjárfesta í siglandi farartæki þá pöntum við okkur far hið snarasta.

Við komum síðan bara beint heim í jólin og að venju vorum við dekruð upp fyrir haus í foreldrahúsum. Of stór skammtur af gjöfum, mat og öðrum huggulegheitum. Við erum búin að njóta og erum enn að njóta þess að vera í löngu og góðu jólafríi. Það kemur sér nefnilega vel að vera kennari yfir jólin þar sem við fáum bæði gott frí milli jóla og nýárs. Að vanda nýtist fríið reyndar helst til þess að undirbúa sjúkrapróf og komandi önn. Við byrjum síðan aftur að kenna 4. janúar (afmælisdagurinn hennar mömmu). Ég lýk haustönninni í Keili á fyrstu tveimur vikunum í janúar og starta síðan nýju námskeiði í BA náminu í uppeldis- og menntunarfræðinni í Háskólanum í janúar. Ég tek við námskeiði sem á sér sérstakan stað í "námshjartanu" mínu. Námskeiðið heitir "samskipti í uppeldis- og fræðslustarfi" og er eitt af skyldunámskeiðunum í uppeldisfræðinni. Það gaf mér svo mikið að sitja þennan kúrs á sínum tíma að ég er hálf nervus að taka við kennslunni núna - enda vil ég að nemendur fái tækifæri til að upplifa námsefnið á jafn jákvæðan hátt og ég gerði á sínum tíma. Ég hlakka að minnsta kosti til að fá að fara í gegnum skemmtilegt og krefjandi efni með hópi BA nema.

...já það er margt að hlakka til á nýju ári!