Wednesday, November 11, 2009

Það er heldur...

...tómlegt í íbúð númer 7 við ánna Nervion hér í Bilbao. Frábærir gestir komu til okkar og fóru svo aftur eins og gestum er von og vísa. Það var ómetanlega skemmtilegt að fá þau Höllu og Bjögga til okkar og yndislegt að láta minna sig á hversu ljónheppin við erum með fólk í kringum okkur. Vinir okkar eru æði!

Því miður voru veðurguðirnir ekki jafn spenntir fyrir komu þeirra skötuhjúa til Spánar og skelltu á beljandi rigningu og hagléli í fimm daga. Það gerði nú ekki mikið til því þau Halla Rós og Björgvin eru bjartsýnisfólk í meira lagi og létu ekki (ó)veðrið hafa áhrif á sig. Það var því með bros á vör og sól í hjarta sem við skáluðum í nokkrum bjórum, borðuðum góðan mat, hlupum á milli búða í "smá úða", þrjóskuðumst til að kaupa ekki regnhlífar, fórum í körfuboltagleði, dönsuðum til klukkan sex um morgunin, töluðum langt fram á morgun, sváfum langt fram eftir degi, borðuðum pinxtos, lögðum á ráðin um Ameríkuferðir, skáluðum fyrir jafnrétti, fórum næstum því í spilavíti og áttum hreint út sagt frábærar stundir saman. Takk fyrir yndislega ferð þið fallega fólk!

Nú tekur veruleikinn við, sem hefur sínar jákvæðu og neikvæðu hliðar eins og lífið sjálft. Skóli, vinna, skrifa, lesa og svo framvegis. En það er líka komin fiðringur í okkur fyrir heimferð í desember.

Tuesday, November 03, 2009

Haustrigning, gestir og ráðstefna

Þann 1. nóvember kom haustið til Bilbao. Þrátt fyrir að laufin hafi gulnað eilítið og eitt og eitt slysast til að falla til jarðar síðustu vikur þá hefur lítið annað minnt á haustið fyrr en það birtist okkur í formi úrhellis rigningar á fyrsta degi nóvembermánaðar. Það var sko engin surimiri rigning sem oft einkennir Bilbao og er nokkurs konar úði sem maður finnur varla fyrir.








Haustið kom okkur jafn mikið á óvart og veturinn virðist koma Íslendingum á óvart á hverju ári. Við vorum til að mynda ennþá klædd í sumarfatnað líkt og Íslendingar eru oftast ennþá á sumardekkjunum þegar fyrsti snjóbylurinn skellur á.

En þá er það semsagt opinbert, sumarið hefur kvatt í bili og nú hlökkum við bara til að koma heim í alvöru vetur og vonumst auðvitað eftir hvítum jólum með öllu tilheyrandi. Við ætlum að leyfa okkur gott jólafrí og verðum heima í næstum því mánuð. Tengdapabbi minn spurði reyndar að því hvort að þessi heimsókn okkar ætti ekki að vera skemmtileg þegar hann frétti hvað við yrðum lengi.... ;) Við gerum okkar besta til að halda uppi stuðinu í rúmar þrjár vikur og þær verða án efa mun fljótari að líða en aðrar þrjár vikur í dagatalinu.

En það er fleira sem lætur okkur hlakka til þessa dagana - ekki á morgun heldur hinn er von á gestum og við getum einfaldlega ekki beðið. Við hefðum nú svo sem alveg óskað þeim betra veðurs en veðurfar er nú einu sinni hugarfar og smá hrollur er bara hollur - eða það lærðist okkur og vinafólki okkar amk í Argentínu forðum daga.

Þessi komandi heldi verður undirlögð hjá okkur því ekki nóg með að við séum að taka á móti góðu fólki heldur er líka ráðstefna á milli skóla hjá mér. Institute of Education í London og Danish School of Education koma líka og þrír árgangar af MA LLL fólki sameinast á einni ráðstefnu hér í Bilbao. Ég ætla nú að reyna að vera sem minnst á ráðstefnunni og sem mest með gestunum en verð samt sem áður að vera með stutt erindi um ritgerðina og svona aðeins að sýna mig og sjá framan í annað fólk - til þess er leikurinn gerður.

Góðar stundir og njótið helgarinnar - við ætlum sko að njóta í botn!!