Sítrónurnar falla af trjánum og veturinn í Malaví nálgast með yndislega svöl kvöld og morgna og heiðbláan himinn. Klukkan er sjö og reykjarlyktin berst með morgungolunni frá nærliggjandi þorpum þar sem malavískar konur matbúa morgungrautinn yfir opnum eldi. Haninn í næsta húsi hóf raust sína um fimm leytið og fyrstu sólargeislarnir smeygðu sér inn um gluggann um klukkan sex. Þá vaknaði líka yngsti fjölskyldumeðlimurinn og heimasætan skreið upp í til okkar. Fullkomin eining.
Við eyddum gærkvöldinu í félagsskap fólks sem kann að segja skemmtilegar sögur og njóta stundarinnar. Við höfum kynnst fólki hér í Malaví sem kemur frá ótal ólíkum löndum og sinnir mismunandi verkefnum en hefur á einhvern undraverðan hátt svo sameiginlega sýn á lífið. Að njóta, virða og elska.
"Mamma við skulum bara vera í núhugsun" sagði Hera Fönn við mig um daginn þegar við ræddum fortíð og framtíð. Það er takmarkið - að njóta samveru, fólks, umhverfis og aðstæðna á meðvitaðan og markvissan hátt næstu mánuðina þangað til að Malavíævintýrið okkar rennur sitt skeið og önnur taka við.
Sunday, April 17, 2016
Thursday, March 03, 2016
UNICEF, Malaví og menntun
Síðasta færsla fjallaði um fyrstu rigningarnar í borginni. Nú fer að líða undir lok rigningartímabilsins sem hefur, heilt á litið, verið gjöfult og gott. Sérstaklega fyrir miðhluta Malaví. Það þýðir hins vegar ekki að allir hafi notið góðs af. Stór landsvæði í Malaví fengu annað hvort litla sem enga eða allt of mikla rigningu í ár. Þar líður fólk nú mikinn matarskort - sérstaklega konur og börn. Helmingur allra barna í Malaví eru alvarlega vannærð. Oftast vegna þess að þau skortir fjölbreytta fæðu. Langvarandi skortur á próteini, steinefnum og öðrum lífsnauðsynlegum næringarefnum hefur óneitanlega áhrif á vöxt, þroska og getu barna. Börn í Malaví eru langflest mun minni en aldur þeirra segir til um og bera líkamleg og andleg einkenni vannæringar. Þessi raunveruleiki hefur mikil áhrif á tækifæri þeirra og getu til þess að stunda nám.
Í Malaví, sem er álíka stórt og Ísland, búa um það bil 16 milljónir manna. Helmingur þeirra eru börn. Flest þessara barna ganga í skóla. Á síðasta skólaári voru jafn margar stúlkur og drengir skráð í fyrsta bekk í grunnskóla. Stúlkur og drengir sitja þó á engan hátt við sama borð í malavísku menntakerfi sem endurspeglast einna skýrast í háu brottfalli stúlkna úr skóla. Stúlkur bera yfirleitt meiri ábyrgð og þurfa því frekar að vinna fyrir fjölskyldunni eða afla matar ef hart er í ári. Það lendir líka oftar á stúlkum að annast veika eða aldraða fjölskyldumeðlimi. Þá eru ótaldar allar þær stúlkur sem ekki ljúka námi vegna þess að þær eru gefnar í hjónabönd og/eða verða ófrískar fyrir 14 ára aldur. Staðreyndin er sú að einungis 29% allra stúlkna sem hefja nám í fyrsta bekk koma til með að ljúka átta ára skólagöngu.
Síðasta ár var annasamt ár á UNICEF skrifstofunni hér í Malaví. Menntadeildin lagði mikla áherslu á að vinna með og fyrir stúlkur á sem fjölbreyttastan hátt til þess að efla möguleika þeirra á góðu námi (e. quality education). Það hefur nefnilega sýnt sig að ofurháersla á að koma börnum inn í skóla nægir ekki ein og sér til þess að auka lífsgæði þeirra og framtíðarmöguleika. Í Malaví eru til dæmis hátt í 90% allra grunnskóla staðsettir í sveitum landsins. Í flestum þessum skólum er ekki rafmagn, rennandi vatn eða sæmileg yfirbygging. Í hverjum skóla eru að jafnaði eitt þúsund börn sem deila með sér tveimur til fjórum skólastofum og einu til tveimur klósettum. Kennslan fer að mestu fram utan dyra í steikjandi sól eða úrhellis rigningu. Skortur á salernisaðstöðu er víða algjör og börn fá hvorki vott né þurrt á meðan þau eru í skólanum. Þar að auki er gríðarlegur skortur á kennurum sem hafa réttindi og hæfni til að kenna. Margir kennarar beita enn líkamlegum refsingum og notast við úreltar kennsluaðferðir þar sem reynir lítið á raunverulegan skilning og þekkingu barnanna. Stór hluti barna í Malaví útskrifast úr grunnskóla ólæs og óskrifandi. Það er í raun ótrúlegt að börn sem búa við þetta tiltekna námsumhverfi nái yfir höfuð að læra eitthvað.
Þegar vandinn er jafn umfangsmikill og raun ber vitni er nauðsynlegt að bjóða upp á lausnir sem ná yfir ólíka geira og svið menntunar. Það er ekki nóg að byggja skólastofur ef í þeim starfa ekki hæfir og metnaðarfullir kennarar. Það er ekki nóg að aðstoða menntamálaráðuneytið við að búa til skýra stefnu um að stúlkur séu velkomnar aftur í skóla eftir að hafa fætt börn ef stjórnendur í héruðum og skólum landsins fylgja henni ekki eftir. Staðan kallar á margþætta nálgun.
Það er þess vegna sem UNICEF leggur áherslu á að vinna að menntamálum á fjórum ólíkum sviðum sem öll tengjast þó innbyrðis og hafa áhrif á hvort annað. Öll eru jafn mikilvæg til þess að ná fram langvarandi og sjálfbærum árangri.
Þegar vandinn er jafn umfangsmikill og raun ber vitni er nauðsynlegt að bjóða upp á lausnir sem ná yfir ólíka geira og svið menntunar. Það er ekki nóg að byggja skólastofur ef í þeim starfa ekki hæfir og metnaðarfullir kennarar. Það er ekki nóg að aðstoða menntamálaráðuneytið við að búa til skýra stefnu um að stúlkur séu velkomnar aftur í skóla eftir að hafa fætt börn ef stjórnendur í héruðum og skólum landsins fylgja henni ekki eftir. Staðan kallar á margþætta nálgun.
Það er þess vegna sem UNICEF leggur áherslu á að vinna að menntamálum á fjórum ólíkum sviðum sem öll tengjast þó innbyrðis og hafa áhrif á hvort annað. Öll eru jafn mikilvæg til þess að ná fram langvarandi og sjálfbærum árangri.
1. Styðjandi umhverfi: Að efla lagarammann, betrumbæta og móta nýjar stefnur, vinna að breyttum viðhorfum og ná fram pólitískum vilja til umbóta. Síðast liðin tvö ár hef ég unnið mjög náið með menntamálaráðuneytinu við stefnumótun og nýsköpun. Ég hef fengið að vera í ráðgefandi hlutverki og þróa með þeim prógrömm sem stuðla að bættu aðgengi og gæði menntunar. Í fyrravetur var til dæmis algjörlega frábært að fá að leggja lokahönd á brauðtryðjandi stefnumótun um stúlknamenntun í landinu. Stefnu sem vakið hefur athygli í öðrum löndum.
2. Eftirspurn: Það er gríðarlega mikilvægt að skapa stöðuga eftirspurn eftir námi. Eftir góðum skólum, kennurum og árangri. Í Malaví meta margir foreldrar hjónabönd stúlkna ennþá meira en skólagöngu. Fátækt spilar þar stórt hlutverk. Það skiptir því miklu máli að fá foreldra í lið sér mér.Þá er ekki síður mikilvægt að ná eyrum þorpshöfðingja og leiðtoga. Ef áhrifamiklir aðilar í nærsamfélaginu tala fyrir gildi menntunar eru líkur á að fleiri börn fái tækifæri til náms.
Skemmtilegast og mikilvægast finnst mér þó að skapa þessa eftirspurn á meðal barna og ungmenna sjálfra. Hvetja þau til áhrifa, heyra skoðanir þeirra og gefa þeim rödd. Þetta höfum við gert markvisst í vetur með því að skapa vettvang þar sem börn og ungmenni, sérstaklega unglingsstúlkur, hafa fengið tækifæri til að tjá sig um stöðu sína og framtíðarmöguleika.
Skemmtilegast og mikilvægast finnst mér þó að skapa þessa eftirspurn á meðal barna og ungmenna sjálfra. Hvetja þau til áhrifa, heyra skoðanir þeirra og gefa þeim rödd. Þetta höfum við gert markvisst í vetur með því að skapa vettvang þar sem börn og ungmenni, sérstaklega unglingsstúlkur, hafa fengið tækifæri til að tjá sig um stöðu sína og framtíðarmöguleika.
3. Innviðir og efniviður: Flestir skólar í Malaví starfa án allra þeirra hluta sem við myndum telja lágmarks efnivið til að halda úti skólastarfi. Skólastofur, salernisaðstaða, bækur, menntaðir kennarar.... eru sjaldnast til staðar. Í vetur höfum við farið ótal leiðir til að koma til móts við þennan gríðarlega skort. Við höfum byggt skóla, salerni og borað eftir vatni. Við höfum lika menntað kennara í jafnrétti, einstaklingsmiðuðum kennsluaðferðum og reynt að auka faglega færni þeirra og umyggju fyrir nemendum sínum. Við höfum styrkt nýsköpunarverkefni sem stuðla að því að skólar geti keypt sér sínar eigin bækur í stað þess að bíða í mörg ár eftir því að fá sendar bækur frá Menntamálaráðuneytinu og við höfum reynt að efla samfélögin sjálf til þess að taka þátt í skólauppbyggingu.
4. Gæði menntunar. Þegar öllu er á botninn hvolft eru það auðvitað gæði náms sem skipta mestu máli. Námsárangur og velferð barnanna á meðan á skólagöngu þeirra stendur er hinn endanlegi mælikvarði. Það er ekki nóg að börn sitji í skólastofu ef þau læra hvorki að lesa né skrifa. Það er ekki til neins að mæta í skólann á hverjum degi ef að öryggi þínu er ógnað því kennarinn leggur hendur á þig eða beitir þig kynferðislegu ofbeldi. Það er ekki til neins að læra heima ef þú færð ekki stuðning og viðurkenningu frá samfélaginu.
Hið endanlega takmark hlýtur því að vera skólastarf sem einkennist af gæðum. Gæðum á sviði menntunar þar sem nemendur öðlast þekkingu, færni og viðhorf sem hjálpa þeim að þroskast og dafna í sínu nærsamfélagi og samfélagi þjóða. Skólastarf sem styður við sjálfstæði og gagnrýna hugsun nemenda. Skólastarf sem skapar öruggt og umhyggjusamt umhverfi. Þar sem fólki þykir vænt um hvort annað og hefur velferð barna að leiðarljósi.
UNICEF vinnur samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna við að uppfylla ófrávíkjanleg réttindi barna - meðal annars til menntunar. UNICEF hefur sérstöðu á meðal þeirra sem sinna þróunar- og hjálparstarfi fyrir börn í heiminum því samtökin treysta algjörlega á frjáls framlög frá fólki sem lætur sig málefni barna varða. UNICEF vinnur auk þess þvert á geira, í samstarfi við aðrar alþjóðastofnanir, með yfirvöldum, grasrótarhreyfingum og síðast en ekki síst börnum og ungmennum til þess að ná fram langvarandi og sjálfbærum árangri.
Ég hef séð miklar og jákvæðar breytingar á þeim rúmum tveimur árum sem ég hef verið svo lánsöm að fá að starfa með UNICEF hér í Malaví. Það er engu að síður ótrúlega langt í land og því nauðsynlegt að halda áfram að vinna markvisst að því að tryggja réttindi barna um allan heim til náms.
Ég hef séð miklar og jákvæðar breytingar á þeim rúmum tveimur árum sem ég hef verið svo lánsöm að fá að starfa með UNICEF hér í Malaví. Það er engu að síður ótrúlega langt í land og því nauðsynlegt að halda áfram að vinna markvisst að því að tryggja réttindi barna um allan heim til náms.
Subscribe to:
Posts (Atom)