Tuesday, October 15, 2013

Praktísku atriðin

Við höfum átt heima á ólíkum stöðum í heiminum: Íslandi, Spáni, Argentínu og Kaupmannahöfn sem dæmi. Í hvert skipti sem við flytjum og hefjum búskap í nýju landi fer um mig tilfnning sem er sambland af spennu, stressi, eftirvæntingu og gleði. Það er eitthvað alveg sérstakt við að koma sér upp heimili; innrétta, huga að stóru hlutunum jafnt sem smáatriðunum. Við höfum langoftast þurft að vera ansi úrræðagóð, nýta það sem til er, gera mikið úr litlu... Sjaldan höfum við hins vegar þurft að huga að jafn ólíkum hlutum og nú þegar við flytjum inn í nýtt hús í Malaví.

 Á "to do" listanum í þessari viku er til dæmis að hringja og panta mann til þess að fara yfir íbúðina með varnarúða gegn hvers kyns skordýrum. Þá þurfa einnig að koma menn til að taka út almennt öryggi á lóðinni með tilliti til UN reglna. Við þurfum líka að huga að loftkælingu og uppsetningu á slíkri græju því henni er ekki fyrir að fara í íbúðinni sem stendur. Okkur hefur hins vegar hitnað jafnt og þétt síðustu daga og erum nú á því stigi að merkja ósýnilega línu í mitt rúmið og biðja svo hvort annað afar vinsamlegast að fara ekki yfir þessa línu til þess að lágmarka klístraða og sveitta snertingu yfir nóttina. Loftkæling er þar af leiðandi nauðsynleg ef vel á að fara. Við þurfum síðan að huga sjálf að sorphirðu en slíkt fer yfirleitt í gegnum einkafyrirtæki. Klóakmál eru líka í höndum húseiganda og því þurfum við að skoða þau mál vandlega þegar við flytjum inn. Hefur verið hreinsað nýlega eða þarf að huga að því?  

Talin moskitóbit á húsfrúnni eru orðin um það bil 30 talsins og því er eitt af mikilvægari verkum fyrir flutninga að fjárfesta í góðum moskítómeðhöndluðum netum sem hægt er að sofa vært undir. Við viljum helst fá net sem ná vel utan um rúmið en liggja ekki þétt upp við andlit og útlimi (þær bíta mig til dæmis bara í gegnum netið ef handleggurinn liggur upp við það). Netin hef ég ekki ennþá séð í búðum og þarf því að leggjast í rannsóknarvinnu. Rúmdýnur virðast líka vera afar sjaldgæfar hér í borginni. Ítrekaðar leiðangursferðir Lárusar hafa lítinn sem engann árangur borið og við sjáum fyrir okkur að sofa á 90 cm vindsæng fyrstu dagana ef ekki fer að birta til. Á síðasta kvenfélagsfundi fékk Lalli þó einhverjar aukaupplýsingar og ætlar að láta reyna á það í vikunni. 

Já svona eru verkefnin bæði mörg og mismunandi þegar hugað er að flutningum. Við leyfum ykkur að sjálfsögðu að fylgjast með þessum æsispennandi dögum sem framundan eru hér hjá okkur í Lilongwe.   

Monday, October 14, 2013

Ævintýraleg helgi

UN stofnanir um heim allan ákveða tiltekinn fjölda af frídögum á ári í samræmi við mismunandi trúarbrögð og þá frídaga sem gilda í hverju landi fyrir sig. Í dag og á morgun er frí hjá sameinuðu þjóðunum í Malaví. Í fyrsta lagi vegna mæðradags sem haldin er mjög svo heilagur hér í landi. Útvarpsþulir hafa til að mynda á síðast liðinni viku ítrekað minnt hlustendur á að versla eitthvað fallegt handa mæðrum sínum og malavískar konur af skrifstofunni minni pósta löngum færslum á Facebook til heiðurs mæðrum sínum. Í öðru lagi vegna Eid al-Fitr eða "feast of breaking the fast" - lokadagur Ramödunar. 

Við fjölskyldan nutum þess í botn af fá langa helgi og héldum suður að Malavívatni þar sem dekruðum við okkur í meira lagi. Það var algjörlega frábært að komast út fyrir borgarmörkin og sjá meira af þessu fallega og margbreytilega landi. Við keyrðum í gegnum sléttur og fjöll alla leið niður að vatninu sem ég tala ennþá um sem sjó enda erfitt að ímynda sér vatn af slíkri stærðargráðu. Í ferðum sínum um Afríku árið 1859 nefndi Livingstone vatnið "Nyasa" eða "lake of stars" - eftir að hafa séð sólina setjast tvö kvöld í röð við vatnið skil ég vel nafngiftina og hefði jafnvel bætt við "stjarna og drauma" eða einhverju álíka væmnu og rómantísku en slíkur er andinn sem svífur yfir. Við snæddum morgun- hádegis og kvöldmat með útsýni yfir spegilslétt vatnið þar sem hafernir svifu um og klófestu sinn snæðing. Yfir daginn svömluðum við í sundlauginni og töldum áreiðannlega yfir 30 fuglategundir. Lalli og Hera Fönn sigldu á kajak á meðan mamman lá á ströndinni og síðan fórum við öll saman í sólseturssiglingu á seglskútu. Á morgnanna fylgdumst með apafjölskyldu vakna fyrir utan svalirnar okkar, gefa apabörnum brjóst og snyrta hvert annað.   

Ef einhverjir voru að láta sig dreyma um að koma í heimsókn en voru ekki alveg vissir þá ættu meðfylgjandi myndir og þær sem birtast á Facebook að auðvelda fólki að láta draumana rætast! 

Morgundagurinn verður síðan nýttur í að plana komandi daga og vikur þar sem við erum loksin komin á ról með að búa okkur til okkar eigið líf hér í borginni. Við hlökkum til að komast inn í húsið okkar í þar næstu viku og hefjast handa við að gera það huggulegt. Hera Fönn fer á nýjan leikskóla í sömu viku og þá erum við loksins komin með langtímapláss fyrir hana. Leikskólinn er æðislegur, heldur húsdýr og býður upp á frábært úti- og leiksvæði. Við erum spennt að komast í okkar eigin rútínu og segja frá öllum hversdagslegu hlutunum sem gera lífið að ekki minna ævintýri en helgar líkt og sú sem leið.     



























Wednesday, October 09, 2013

Raddir barna

Nú er ég aftur komin á ról vinnulega séð eftir ferðalög síðustu viku. Eins og ég hef sagt frá áður eru verkefnin mín á skrifstofu UNICEF hér í Malaví æði mörg og krefjandi. Eitt af stærri verkefnunum sem ég tók að mér er að sinna ráðgefandi hlutverki fyrir menntamálaráðuneytið sem vinnur þessa dagana að stefnumótun um menntun án aðgreiningar eða Inclusive Education. Hér sýnist mér helsta áskorunin vera fólgin í því að fjalla um börn með fatlanir á upplýstan og ábyrgan hátt og móta síðan skólastefnu sem byggir á slíkri umfjöllun og umræðu.  

Í fyrradag hitti ég félaga mína úr ráðuneytinu, tvo menn á miðjum aldri, og fékk að heyra af áætlunum þeirra. Áætlanir þeirra um upphaf slíkrar stefnumótunar fólust í góðum hugmyndum um þrjá samráðs- og vinnufundi í hverjum landshluta fyrir sig en landinu er skipt upp í norður-, mið- og suðurhluta. Mér leist strax mjög vel á slíkt fyrirkomulag en setti þó spurningarmerki við tvennt. Í fyrsta lagi fjárhagsáætlunina sem hljóðaði upp á ansi háa reikninga fyrir akstur og hótelgistingu ýmissa aðila og í öðru lagi boðaða þátttakendur á fundina.  

Í tengslum við akstur og hótelkostnað sem áætlaður var á hvern einasta héraðsmenntafulltrúa (24 talsins) og aðra fyrirmenn fékk ég einfaldlega þá skýringu að ekki væri hægt að ætlast til þess að fólk í jafn háum stöðum kæmi sér sjálft á áfangastað og því einungis eðlilegt að útvega bílstjóra og tilheyrandi. Ég er hrædd um að það muni taka uppeldis- og menntunarfræðing ofan af Íslandi nokkuð langan tíma að venjast þessari hugsun (ef einhverntíman). Ég sá hins vegar strax að þetta væri ekki til frekari umræðu og snéri mér því bara að næsta atriði sem skiptir líka meira máli. Það tengdist lista þátttakenda. Á fundinn voru boðaðir fjölmargir hagsmunaaðilar sem tengjast hugtakinu menntun án aðgreiningar. Til dæmis kennarar, skólastjórar, menntafulltrúar héraða eins og áður sagði og fleiri sem tengjast rekstri og utan um haldi skólanna. Þá voru einnig boðuð á fundinn hin ýmsu félagasamtök og stofnanir (NGO's) sem tengjast fötluðum börnum á einn eða annan hátt. Á listann vantaði hins vegar afar mikilvægt fólk að mínu mati: Foreldra og börn! 

Ég viðraði þetta á mjög svo diplómatískan hátt og benti á að það væri lítil stoð í því að móta stefnu um menntun án aðgreiningar ef ekki væri haft samráð við þá sem virkilega eiga að njóta góðs af slíkri stefnu - foreldra barna með fatlanir og sérþarfir og börnin sjálf. Það eru þau sem þekkja það best á eigin skinni að hafa ekki aðgengi að menntun, að vera útilokuð eða aðskilin frá öðrum. Þau hljóta því að hafa mest um málið að segja.

Félagar mínir í ráðuneytinu voru fyrst í stað ekki mjög spenntir fyrir því að "bæta fleira fólki á listann" eins og þeir orðuðu það. En eftir smá spjall urðum við sammála um að samráðs- og vinnufundir þar sem umfjöllunarefnið er aukið aðgengi að menntun fyrir ÖLL börn ættu að gera ráð fyrir börnum og forráðamönnum þeirra. Sérstaklega þeirra sem búa við fatlanir eða skerðingar. Börn í þeirri stöðu hér í Malaví hafa afar takmarkaða möguleika á menntun sökum aðgengis, úrræðaleysis, þekkingarleysis eða fordóma. Þess vegna skiptir gífurlegu máli að hlusta á - og taka mið af - skoðunum þeirra og reynslu.  

Eða eins og slagorðið segir: "Nothing about us without us". Tékkið endilega á þessu myndbandi þar sem réttindi barna með fatlanir eru í brennidepli  hjá UNICEF nú sem aldrei fyrr. Fyrir þá sem vilja fræðast enn betur þá er þessi kynning líka stórgóð. Hvet alla kennara til þess að kíkja á myndböndin líka þar sem þau nýtast vel í kennslu í margs konar samhengi (félagsfræði, samfélagsfræði, þróunarfræði, lífsleikni, enska...)


Sunday, October 06, 2013


Hera Fönn og Lalli eru búin að vera mjög dugleg að "sósíalisera" hér í Lilongwe, kynnast fólki og styrkja tengslanetið. Lalli er meðal annars búinn að skella sér í göngutúr og teboð með kvenfélags- "kellingum", þar var honum boðið í foreldrahóp sem hittist þrisvar í viku eftir hádegi og á föstudögum er lifandi tónlist og drykkir í boði. Einu sinni í mánuði eru síðan Skandínavakvöld á golfvellinum sem þau feðgin eru búin að fara á - og kynnast fullt af áhugaverðu fólki sem ýmist sinnir skurðlækningum, ljóðagerð, sjálfboðastörfum, tómatarækt, kennslu eða bara einhverju allt öðru. Á fyrsta degi nánast var Lalli líka boðið í klúbb svo kallaðra house-husbands. Klúbburinn kallast "the STUDS" og þið megið giska fyrir hvað skamstöfunin stendur :)   

Að mánuði liðnum...

er óhætt að segja að Malaví hafi komið við þrjú hjörtu frá Íslandi. Endalaus uppspretta vinalegaheita af hálfu fólksins hér, bæði Íslendinga og Malava, er auðvitað forsendan fyrir því hversu vel okkur hefur liðið frá fyrsta degi. Það hefur til að mynda verið ómetanlegt að búa á góðu heimili - að hafa fastan punkt í tilverunni - á meðan við komum okkur fyrir. Eins og ég hef komið að áður taka hlutirnir hér í Malaví sinn tíma og það eru forréttindi að vera í þeirri stöðu að geta andað rólega, hugað vel að hlutunum og tekið góðan tíma í að byggja upp stoðirnar í kringum okkur. Það er heldur ekki alltaf sem kerfið hér í Afríku segir sig sjálft eða virkar eins og við ætlumst til. Þá er mikilvægt að geta leitað til þeirra sem þekkja betur til, kunna á kerfið og geta miðlað af reynslu til okkar nýbúanna.  

Í síðast liðinni viku hélt ég til á sveitasetri í Nairobi, Kenya. Þar var haldin svo kallaður Regional Education Meeting þar sem fulltrúar frá menntasviði UNICEF frá öllum löndum í suður- og austurhluta Afríku komu saman til að ræða nýjustu stefnur og strauma, deila hugmyndum og læra af hvort öðru. Fundurinn var ansi langur og en vikan leið hratt því efnistökin voru bæði spennandi og krefjandi. Fallegu feðgin undu sér hins vegar heima í Malaví - við ekki síður mikilvæg verkefni sem fólust í að reisa stoðirnar í lífinu okkar. Hera Fönn byrjaði í leikskólanum First Steps þar sem hún virðist una sér vel. Leikskólarnir hér í Malaví leggja meiri áherslu á formlegt nám en leikskólar í Skandinavíu gera. Sem dæmi læra börnin strax frá 2 ára aldri mjög markvisst stafi, tölur og form. Kennarnir höfðu í fyrstu ákveðnar áhyggjur af því að Hera Fönn væri ekki tilbúin í þetta form af leiksóla komandi frá Skandinavíu. Við foreldrarnir höfum hins vegar litlar áhyggjur vitandi það að þessi formlegi og skýri rammi hentaði okkar stúlku eflaust betur en nokkuð annað. Enda unir hún sér vel og lærir nú stafina á ensku - sem hún kunni alla fyrir á íslensku. Kennararnir hennar eru afar ánægðir með hana. Hún er farin að segja nokkur orð á ensku í leikskólanum (segir fleiri heima í öruggu umhverfi) og virðist ekki eiga í neinum erfiðleikum með að taka þátt í leik eða nálgast hin börnin þó svo að þau tali ekki ennþá sama málið. Um daginn kallaði hún til dæmis "lets go" á öll börnin þegar þau áttu að koma inn í tíma. 

Nú bindum við vonir við að flytja inn í húsið okkar í næstu viku. Húsið sem er í eigu tóbakssamtaka (tóbak er helsta útflutningsvara Malava) þarfnast töluverða viðgerða sem við óskuðum eftir að yrðu gerðar. Nú erum við að bíða eftir því að fyrirtækið taki ákvörðun um hvort og hversu mikið þau telja sig tilbúin að gera við áður en við flytjum inn. Það er reyndar ágætt að við höfum smá tíma fyrir okkur þar sem okkur vantar nákvæmlega allt inn í húsið. Þegar ég segi allt, þá meina ég allt. Húsinu fylgir til að mynda hvorki eldavél, þvottavél eða ísskápur. Í Lilongwe er ein búð sem selur tæki af þessu tagi og þau fást sko ekki á neinum afslætti. Við erum þess vegna búin að leita hingað og þangað til fólks sem er að flytja og gæti mögulega verið að selja dótið sitt fyrir örlítið hagstæðari kjör - það gengur ágætlega.... en hratt gengur það ekki! Við höfum fest kaup á eftirfarandi hlutum: Ísskáp, gervihnattadisk, bastsófasetti og ketti. 

Okkur hlakkar óskaplega til að fá kisuna í hendurnar en hún á heima í húsinu okkar núna og fær að fylgja með í stað þess að fara aftur í Kattholt þaðan sem fyrri eigendur fengu hana. Hera Fönn veit að hún mun eignast kisu þegar við flytjum og þið getið rétt ímyndað ykkur spenningin.