Wednesday, April 14, 2010

vikur, dagar, ár...

Lífið okkar Lárusar virðist hálf súrealískt þegar rannsóknarskýrslur, eldgos, flóð og aðrar ógnir og óvættir líta dagsins ljós á Íslandi. Tíminn flýgur áfram og eitthvað nýtt og spennandi virðist gerast á hverjum degi.

Lárus var það sem kallast grasekkill á íslensku en "Rodrigues" á spænsku á meðan ég skrapp í nokkurskonar vinnuferð til Kaupmannahafnar. Þrátt fyrir makaleysið átti hann samt góða viku, spilaði körfubolta, þjálfaði og eyddi góðum tíma með vinum sínum. Í danaveldi átti ég fyrirkvíðanlegt samtal við skattinn sem endaði eins og í ævintýri (góðu ævintýri ekki neinu Grimm ævintýri). Ég eyddi líka tíma með nokkrum góðum vinkonum og vinum sem minnti mig rækilega á gildi vináttu og notalegheita í lífinu. Ég fór í klippingu, borðaði góðan mat og hjólaði um alla borg með vindinn í fangið - semsagt afar frískandi og upplífgandi ferð.

Það var samt ágætt að koma aftur í faðm ástmannsins, fá smá skammt af sól og sumaryl, finna stresshnútinn myndast í maganum og opna bækurnar. Nú er vika í Ítalíuferðina og á þessari viku þarf ansi mikið að gerast í ritgerðarmálum. Ég var þess fullviss í gær að ég hefði góðar tvær vikur til stefnu en svona svíkur tíminn mann oft og iðulega. Þá er bara að setja í fimmta gír og læra bæði nótt og dag - skipuleggja hvern klukkutíma og vona það besta

Við erum ennþá svo gott sem grunlaus um hvað framtíðin (næsta haust) kemur til með að bjóða okkur upp á og höfum ekki tekið neina ákvörðun um borg, land, stað eða störf... við lifum á ystu nöf!

Síðar vinir, óskum allra góðrar viku og segjum næst frá Ítalíuför okkar





Thursday, April 08, 2010

Pastellitaðir páskar

Við eyddum páskunum með spænskum vinum. Heimsóttum nokkrar borgir og nokkur lítil fjallaþorp, gistum í fjallakofa, elduðum góðan mat, áttum góðar stundir og erum alsæl með öðruvísi en stórgóða páskahelgi.

Castille y León er stórkostlegt hérað á Spáni. Allt öðruvísi en Baskaland. Undurfallegir og mildir pastellitir; gul og ljósbrún jörð, ljósblár himinn og bleikir steinar... Storkar með hreiður efst í kirkjuturnum og á raflínumöstrum. Týndur froskur í Salamanca, háskólinn, kirkjan, fólkið og allt hitt. Undurfagurt.

Muy bien - todo (sem var einmitt frasi ferðarinnar).